10-12 ára | Fálkaskátar

Skátar á aldrinum 10-12 ára nefnast fálkaskátar. Skátastarf er skemmtilegt og þannig á það að vera, ef starfið er ekki skemmtilegt – þá er það ekki skátastarf

Starfið í fálkaskátum

vikingastrakur

Eins og fálkinn konungur háloftanna, fylgja fálkaskátar fordæmi helstu kappa Íslandssögunnar sem vildu bæði nema ný lönd og kanna ókunn svið í hópi félaga og vina.

Fálkaskátar starfa í 5-7 manna flokkum jafnaldra sem funda vikulega. Flokkarnir velja sér spennandi verkefni að fást við og njóta leiðsagnar fullorðinna foringja þegar á þarf að halda.

Nokkrir flokkar mynda skátasveit sem vinnur saman að margskonar verkefnum og fer saman í ferðir og útilegur, jafnt sumar sem vetur.

Verkefnin og ferðirnar hafa tilgang, því þó þau séu spennandi og skemmtileg, eru þau einnig leið skáta til að auka þekkingu og færni og búa skátana undir lífið sem virka, ábyrga og sjálfstæða einstaklinga sem bera virðingu fyrir landi sínu og náttúru.

Dæmi um viðfangsefni fálkaskáta

Einföld ræðukeppni (Leiðtogafærni og samskipti):

Foringinn byrjar að tala um viðfangsefni sem viðkemur skátunum en ekki eru allir sammála um. Þetta gætu til dæmis verið notkun öryggisbúnaðar á hjóli, línuskautum og hjólabrettum. Þá mætti taka fyrir útivistartíma barna og unglinga og annað sem börn deila gjarnan um við foreldra sína.

Nánari lýsing:

Verkefni:

Viðfangsefnið er rætt frá öllum hliðum og síðan er hópnum skipt í tvennt. Annar helmingurinn fær það hlutverk að vera með umræðuefninu og hinn á að vera á móti. Það má leyfa skátunum að velja sér hlið, láta þá draga, eða úthluta skátunum afstöðu. Skátarnir fá síðan einhverja daga til þess að undirbúa ræðu sína þar sem þeir mæla með eða á móti viðfangsefninu. Að lokum flytja skátarnir ræður sínar og jafnvel má fá einhvern til að dæma sigurvegara.

Flekagerð (Frumbyggjar):

Skátarnir byggja eigin fleka. Þeir koma sjálfir með tillögu að því hvernig fleka þeir vilja byggja.

Nánari lýsing:

Markmið:
Að skátarnir þjálfist í samvinnu við áþreifanlegt verkefni.

Undirbúningur:
Fyrir þetta verkefni þarf frekar mikinn undirbúning. Það þarf að útvega tómar olítunnur eða önnur stór flotholt og trönur. Gott er að gera það með góðum fyrirvara. Áður en farið verður að sigla á flekanum þarf að hafa í huga að til sé nóg af björgunarvestum til að allir geti prófað (hægt er að skiptast á með nokkur vesti).

Framkvæmd:
Skátunum er sögð saga af skipbrotsmönnum sem stranda á eyðieyju. Þeim dettur í hug að búa sér til fleka úr efninu sem er að finna á eyjunni. Skátarnir eru beðnir að koma með hugmynd að fleka og hvaða efni þeir þyrftu í flekann.

Hægt er að búa til margar tegundir af flekum. Allir eiga það þó sameiginlegt að einhverskonar flotholt verður að vera til þess að flekinn fljóti. Til dæmis er hægt að nota tómar olíutunnur, frauðplastplötur og mjólkurfernur sem flotholt. Þegar skátarnir hafa byggt flekann sinn fá þeir að reyna að sigla honum á lygnu og grunnu stöðuvatni.

Að búa til eldfjall (Sköpunargleði):

Allir þeir sem reglulega horfa á Bandarískar bíómyndir ættu að kannast við eldfjöll úr pappamassa sem krakkar gera fyrir vísindakeppnir. Nú geta íslenskir skátar spreytt sig við eldfjallagerð.

Nánari lýsing:

Límið tóma, hreina dós við pappakassa eða pappaspjald. Hægt er að nota venjulega niðursuðudós.

Settu dagblöð í kringum dósina þannig að þau myndi nokkurskonar fjall og límið þau þannig að þau tolli saman.

Blandaðu saman hveiti og lími þannig að úr verði nokkurskonar lím. Límið renninga af dagblaðinu eða öðrum þykkari pappír ef vill svo að yfirborð fjallsins verði sléttara.

Þegar fjallið er þurrt er hægt að mála það á ýmsa vegu og skreyta að vild.

Til að kalla fram eldgos þarf að hella matarsóda í dósina. Á botni hennar ætti að myndast um 2-3 cm lag af matarsóda.

Blandið ediki og matarlit (má sleppa) saman í glas og hellið ofan í dósina. Fljótlega ætti eldfjallið að fara að gjósa.

Áhöld og tæki:

  • Pappakassi eða pappaspjald
  • dós
  • sterkt límband
  • dagblöð
  • hveiti
  • vatn
  • skál
  • sleif
  • málning
  • pensill
  • matarsódi
  • edik
  • matarlitur

Einnig getur verið gaman að bæta við risaeðlum eða öðrum plastfígúrum

Stuttmynd (Sköpunargleði): Skátarnir útbúa stuttmynd.

Nánari lýsing:

Markmið:

1. Að skátarnir læri að búa til stuttmynd.

Gott er að byrja á þankahríð um það hvað myndin eigi að vera um.

  • Það er bannað að skjóta niður hugmyndir annarra.
  • Allar hugmyndir eru jafngildar, þær eru jú líka bara hugmyndir.
  • Hver og einn má koma með eins mörg stikkorð og hann/hún vill.

Hver og einn fær post-it miða og penna og skrifar hugmynd á post-it miðana. Um leið og hann límir miðann á vegginn segir hann upphátt um hvað hugmyndin snýst. Þegar allir hafa komið með nokkrar hugmyndir les foringinn upphátt allar hugmyndirnar.

Því næst er gengið til atkvæða. Hver skáti fær þrjú atkvæði og á sum sé að merkja við þrjá post-it miða sem honum líkar vel (teikna lítinn punkt með pennanum).

Stigahæsta hugmyndin er valin. Ef að nokkrar hugmyndir eru jafnar má alltaf athuga hvort að kannski væri hægt að nota margar hugmyndir í einni mynd.

Því næst er búið til svokallað söguborð (e. Story Board). Það er gert með því að taka blöð (helst stór, t.d. flettblöð) og gera á það marga tóma ramma. Í rammana á svo að teikna inn allar senur í myndbandinu eins og þið viljiið skjóta þær. Dæmi um söguborð:

Storyboard1

Velja þarf tökustaði, leikmuni og búninga. Skipa þarf í hlutverk leikenda, kvikmyndatökumanns, hljóðmanns, leikmunavarðar, klippara og svo framvegis.

Þegar undirbúningi er lokið er kynningarmyndbandið tekið upp. Góðar verklagsreglur eru:

  • Reynið að láta myndina hristast sem minnst. Það er hægt að gera með því að nota þrífót. Ef slíkur er ekki fyrir hendi er best að halda á myndavélinni með báðum höndum, eða styðja við þá hönd sem heldur uppi vélinni með hinni hendinni.
  • Passið ykkur á að nota zoomið ekki mikkið á meðan þið eruð að skjóta senu. Ef þið notið það, notið það þá sparlega og mjög hægt. Hratt zoom virkar bara ruglingslegt.
  • Farið frekar nær viðfangsefninu en að standa langt frá og zooma bara að. Það er betra því að eftir því sem þú zoomar meira, því meira hristist ramminn við hverja hreyfingu.
  • Þegar þið eruð með andlit í mynd skuluð þið ekki hafa nefið á manneskjunni í miðri mynd, sem eru algeng mistök. Hafið augun í línu við 1/3 part rammans. Svona:

Þegar þið takið viðtal skuluð þið ekki láta viðmælandann horfa beint í vélina nema hann sé beinlínis að tala til áhorfandans. Látið hann snúa þannig að hann snúi að þeim sem tekur viðtalið við hann og hafið 1/3 part rammans þeim megin “tóman” (það er bara með bakgrunni). Svona:

headroom2

  • Gefið einhverjum það verkefni að vera hljóðmaður. Ef þið eruð með stakann hljóðnema heldur hljóðmaðurinn á honum og passar að hann sé ekki inn í mynd. Hljóðmaðurinn þarf líka að hafa hugann við utanaðkomandi hljóð, s.s. bílaumferð og vind og stöðva tökur ef slíkt heyrist. Svo gæti náttúrulega vel verið að þið veljið að hafa ekkert hljóð, heldur aðeins tónlist. Þá velur hljóðmaðurinn tónlist sem passar vel við.

Þegar þið hafið lokið tökum tekur einhver að sér eftirvinnuna. Hún felst í að klippa myndina. Maður þarf ekki að hafa klippireynslu til að klippa einfalda mynd, en þó þarf maður einhverja tölvureynslu og ágæta enskukunnáttu. Mögulega er einhver í sveitinni sem getur klippt mynd, ef ekki spyrjið þá foringjana í félaginu. Klippiforritið iMovie kemur ókeypis með Apple-tölvum og er frekar einfalt.

Þegar suttmyndin er tilbúin er bara mál að poppa og sýna myndbandið, jafnvel fleiri sveitum. Á www.youtube.com er auðvelt að deila myndbandinu svo að allir geti séð og á www.facebook.com geturðu líka hlaðið því inn og merkt við vini þína í myndbandinu.

Áhöld og tæki:

Kamera (með spólu/með hörðum disk/jafnvel má nota myndbandsupptökufítusa á símum nú til dags)
tölva með klippiforriti (iMovie kemur frítt með Apple tölvum)
flettipappír
pennar
post-it miðar
poppkorn

UM STARF FÁLKASKÁTA

Ýmislegt nýtt býðst skátum þegar þau komast á fálkaskátaaldur. Fálkaskátar byrja að taka þátt í ýmsum félagsviðburðum, þau fara í eigin helgarferðir með jafnöldrum í sínu félagi ásamt því að geta í fyrsta sinn tekið þátt í ýmsum landslægum viðburðum eins og fálkaskátadeginum og Landsmóti skáta. Á þessum aldri fá skátarnir meiru ráðið um  eigin dagskrá og geta  mótað dagskráráherslur eftir því hvar þeirra eiginn áhugi liggur en áhersla er lögð á útivist, ferðamennsku, lýðræði, sköpun, samvinnu og samfélag. Fálkaskátar öðlast víðtæka kunnáttu og mæta ögrandi áskorunum sem  styrkja samtímis útsjónarsemi þeirra, kjark og sjálfsöruggi.

VIKULEGIR HITTINGAR FÁLKASKÁTA

Yfir starfsárið hittast fálkaskátarnir vikulega á föstum tímum í skátaheimili síns félags og nágrenni þess, sá hópur myndar skátasveit. Fálkaskátar byrja að starfa í svokölluðum skátaflokkum þar sem 5-8 skátar vinna saman yfir starfsárið og öðlast um leið mikla reynslu í samvinnu og samskiptum. Á þessum aldri er meiri áhersla lögð á að sinna áhugasviði hvers skáta og skátaflokkurinn mótar eigin dagskrá með stuðningi eldri sjálfboðaliða. Skátarnir hafa aðgengi að allskyns tilbúinni dagskrá til að velja úr eða aðlaga eftir eigin höfði en fá einnig tækifæri til að hrinda eigin hugmyndum í framkvæmd. Fálkaskátasveitin starfar líka oft sem heild eins og þegar stærri dagskrárliðir eru á dagskrá og í undirbúningi ferða. Skátaforingjar fálkaskáta hafa líka áhrif á dagskrána til að skátarnir séu rétt undirbúnir fyrir þær áskoranir sem þau mæta á starfsárinu. Einnig til að tryggja að skátarnir öðlist vissa kunnáttu á fálkaskátaaldri og styðja fálkaskátana til að víkka enn frekar sjóndeildarhringinn.

VIÐBURÐIR Á VEGUM SKÁTAFÉLAGSINS

Innan skátafélagsins fara fálkaskátar í ýmsar ferðir. Þetta geta verið styttri dagsferðir þar sem spennandi útivistamöguleikar í nærumhverfinu eru kannaðir, líkt og í  starfi drekaskáta og lengri útilegur fara að skipa stærri sess í starfi fálkaskáta.

Á fálkaskátaaldri er byrjað að fara í sveitarútilegur víðsvegar um landið þar sem gist er heila helgi í skátaskálum eða tjöldum. Allur háttur er á dagskrá í slíkum ferðum og hún er iðulega stærri og flottari en sú dagskrá sem rúmast á hefðbundnum skátafundum. Dagskráin er breytileg  eftir árstíðum, reynslustigi skátanna og áherslum sveitarinnar. Sveitarútilegur eru vettvangur fyrir fálkaskátana til að kynnast enn betur, þau  skapa sameiginlegar minningar og styrkja liðsanda sveitarinnar.

Fálkaskátar byrja líka að fara í félagsútilegur ásamt skátum á eldri aldursbilum í félaginu. Félagsútilegur eru gjarnan einu sinni á önn og í þeim fá fálkaskátar að upplifa að þau tilheyra stærri hóp skáta og fá innsýn í skátastarf efri aldursbila innan skátafélagsins.

 

VIÐBURÐIR Á VEGUM BÍS

Á vegum Bandalags íslenskra skáta, landssamtaka skátafélaganna, er árlega haldinn einn viðburður fyrir fálkaskáta. Fálkaskátadagurinn er haldinn í nóvember á hverju ári og er dagsviðburður þar sem fálkaskátar af öllu landinu koma saman og spreyta sig á ólíkum áskorunum. Á hverju ári tekur eitt skátafélag viðburðinn að sér og býður öllum fálkaskátum landsins og því fer viðburðurinn fram á ólíkum stað hverju sinni.

LANDSMÓT SKÁTA

Fálkaskátar eru yngstu skátarnir sem fá að taka þátt í Landsmóti skáta sem fer fram á fjögurra ára fresti, ýmist á Úlfljótsvatni og að Hömrum við Akureyri. Landsmótið er vikulangt mót fyrir alla skáta 10 – 18 ára þar sem skátafélög af öllu landinu koma saman og reisa tjaldbúð. Það má með sanni segja að á Landsmóti sé öllu til tjaldað og er dagskrá mótsins því jafnan hin glæsilegasta. Næsta Landsmót verður haldið á Úlfljótsvatni 2024