16-18 ára | Rekkaskátar

Skátar á aldrinum 16-18 ára nefnast rekkaskátar.  Rekkar vinna að forsetamerkinu í sínu starfi og er sjálft Forsetamerkið tákmynd rekkaskáta.

Starfið í rekkaskátum

 

rekkaskatahopurRekki merkir „maður” í Hávamálum. Það þykir mjög táknrænt fyrir þennan aldur að þegar einstaklingur verður 18 ára er hann orðinn lögráða og ber því ábyrgð á eigin gjörðum. Eitt af markmiðum skátastarfs er að þroska einstaklinginn og þess vegna er þetta heiti lýsandi fyrir aldurinn. Í mörgum menningarsamfélögum verður einstaklingur að sýna fram á ákveðna getu eða færni áður en hann er viðurkenndur sem fullorðinn. Rekkar vinna að forsetamerkinu í sínu starfi og er sjálft Forsetamerkið tákmynd rekkaskáta.

Rekkaskátar stunda útilíf jafnt á láglendi sem hálendi allan ársins hring og nýta sér fjölbreyttar leiðir og farartæki.

 

Dæmi um viðfangsefni rekkaskáta

 

Snjóflóðaýlar (Ferðamennska): Skátarnir kynni sér hvernig snjóflóðaýlar virka og æfi sig í notkun þeirra.

Nánari lýsing:

Snjóflóðaýlar
Snjóflóðaýlar eru mikilvæg öryggistæki við alla ferðamennsku að vetri. Rétt notkun á þeim getur stytt þann tíma sem tekur að staðsetja og bjarga manni úr snjóflóði mjög mikið. Mikilvægt er að allir sem ferðast í fjalllendi að vetri til séu með snjóflóðaýli og kunni að nota hann. Snjóflóðaýlar eru til í mörgum mismunandi tegundum frá nokkrum framleiðendum, því getur verið gott að kynna skátana fyrir mismunandi tegundum þó að allir virki þeir svipað.

Leit með snjóflóðaýli
Þegar leitað er með snjóflóðaýli þarf að gera það skipulega. Fylgja þarf ákveðnu leitarmynstri þegar byrjað er að leita þar til merki fynnst frá ýli þess týnda. Þegar komið er mjög nálægt þeim týnda þarf að beita svokölluðu krossleitarmynstri til að finna þann stað á yfirborði flóðsins sem er næstur týnda ýlinum.

Kennsla
Rétt er að fá reynda aðila sem kunna vel á tækin til að leiðbeina um notkun þeirra. Oft má finna slíka aðila inna raða björgunarsveitanna. Þeir aðilar eru líka líklegir til að geta útvegað nokkra mismunandi ýla til að kynna og kenna á.

Verkefni og önnur notkun
Æfa má notkun snjóflóðaýla t.d. með því að nýta þá í póstaleiki við leit að vísbendingum eða öðrum hlutum. Þetta má einnig nota með yngri krökkum, án þess að farið sé nákvæmlega í það hvernig ýlirinn virkar að örðu leiti.

Prófið líka að leita að fleyri en einum ýli í einu. Hvernig virkar ykkar snjóflóðaýlir í slíkum aðstæðum?

Tímahylki (Samfélagið): Tímahylki eru hylki sem grafin eru í jörðu og innhalda upplýsingar um samtímann. Ef að hylkin finnast svo löngu síðar getur mannfólk framtíðarinnar fengið nasaþef af fortíðinni!

Nánari lýsing:

Flokkurinn/sveitin útbýr tímahylki og grefur það í jörðu, t.d. við byggingu nýs skátaskála eða skátaheimilis. Eins getið þið grafið það á afviknum stað, búið til kort þar sem þið merkið staðinn inn á og límt aftan á myndina af Baden-Powell í skátaheimilinu og beðið eftir að komandi skátakynslóðir finni það.

Tímahylki:

Tímahylki innihalda smámuni úr samtímanum til að veita fólki í framtíðinni innsýn í líf á jörðinni á okkar tímum. Hylkin geta innihaldið hvað sem er og eru oft grafin undir hornsteini merkilegra bygginga.

Að búa til hylkið:

Notið ílát úr efni sem ekki brotnar upp í náttúrunni, svo sem plast, málm eða sterkt gúmmí. Hægt er að nota eldhúsílát, nestisbox, málmkassa með lás, svo framarlega sem væta kemst ekki inn að innihaldinu. Gott er að þétta samskeytin með sílikon-kítti.

Samtímamunir:

Þegar smáhlutir eru valdir fyrir hylkið er gaman að týna saman hluti úr skátastarfi samtímans, svo sem merki félagsins eða frá viðburðum, klúta, hnúta, áhöld, bæklinga, mótsbækur og annað. Líka er gaman að setja inn myndir af meðlimum flokksins og skrifa persónulegar kveðjur til mannfólks framtíðarinnar.

Aðrir hlutir úr samtímanum sem gætu haft sögulegt gildi seinna meir eru til dæmis:

 • Úrklippur úr dagblöðum: aðalfréttir ársins.
 • Myndir af tækni dagsins í dag (bílar, tölvur, símar og annað sem þróast hratt og breytist).
 • Tíska: eitthvað sem segir til um tísku dagsins í dag, myndir eða smáhlutir.
 • Frímerki
 • Kvittannir úr verslunum (til að sjá verðbreytingar á nauðsynjum).
 • Tónlist

Áhöld og tæki:

 • Nestisbox eða annað box úr plasti eða málmi
 • sílíkon-kítti
 • smámunir úr samtímanum

Vísindatorg (Tækni og vísindi): ÞNokkrar sniðugar tilraunir sem fá skátana til að hugsa og sýna þeim hvað hægt er að gera margt með einföldum hráefnum.

Nánari lýsing:

Hver þraut ætti að taka um 5 mínútur í framkvæmd. Setjið þær upp hverja á sínu borði með nokkru millibili ef hægt er. Setjið leiðbeiningar um hvernig eigi að framkvæma viðkomandi þraut á hvert borð. Skiptið hópnum upp í litla hópa, jafn marga og þrautirnar eru. Látið hópana svo fara á milli borðanna og spreyta sig á tilraununum.

Blásið upp blöðru:
Áhöld:

 • Plastflaska, edik, matarsódi, blöðrur, teskeið, pappírstrekt.

Leiðbeiningar:

 • 1. skref: Settu vatn upp að einum sentímetra í flöskuna.
 • 2. skref: Bættu við ediki þar til vatnið í flöskunni nemur 3 sentímeter.
 • 3. skref: Notaðu pappírstrekt til að setja 2 teskeiðar af matarsóda í blöðruna.
 • 4. skref: Settu opið á blöðrunni utan um stútinn á flöskunni án þess að matarsódinn fari ofan í flöskuna.
 • 5. skref: Leyfðu matarsódanum úr blöðrunni að detta ofan í flöskuna. Hristu flöskuna vel án þess að sulla.
 • 6. skref: Legðu flöskuna aftur á borðið og fylgstu með hvernig hún blæst út.

Hvað gerðist:
Sýran í edikinu og hinn basíski bökunarsódi mynda koldíoxíð þegar efnin blandast saman og það fyllir fyrst flöskuna og svo blöðruna.

Maísmjöls slímið:
Áhöld:

 • Maísmjöl, skál, teskeið, vatn, matskeið.

Leiðbeiningar:

 • 1. skref: Settu fjórar matskeiðar af maísmjöli í skál.
 • 2. skref: Bættu vatni hægt út í þangað til maísmjölið verður að þykkum vökva.
 • 3. skref: Hrærðu hægt í maísmjölinu. Hvað gerist?
 • 4. skref: Hrærðu hratt í maísmjölinu. Hvað gerist? Er mjölið seigt eða fljótandi.
 • 5. skref: Settu eina skeið af maísmjölinu í lófann og rúllaðu því upp í kúlu. Hvað gerist þegar þú hættir að rúlla henni.

Hvað gerðist:
Maísmjöl leysist ekki upp í vatninu heldur bindst við það. Maísmjöls eindirnar geta rúllað yfir hver aðra svo að blandan virðist vera vökvi. Að hræra í blöndunni lætur eindirnar hreyfast hraðar og myndar orku sem lætur maísmjöls eindirnar festast saman. Vatnið sem var á milli þeirra ýtist í burtu svo að blandan, sem er eins og slím, virðist vera í föstu formi.

Heimskulegt eggja bragð:
Áhöld:

 • 3 harðsoðin egg (og mögulega nokkur auka ef einhver skildu brotna), diskamotta með korki á botninum, 3 vínglös, 3 tóm vítamínglös, vatn.

Leiðbeiningar:

 • 1. skref: Hálf fylltu vínglösin af vatni og stilltu þeim upp í þríhyrning.
 • 2. skref: Settu diskamottuna ofan á glösin með kork hliðina upp.
 • 3. skref: Settu vítamínglösin ofan á diskamottuna í miðju hvers glas.
 • 4. skref: Settu egg í hvert vítamínsglas.
 • 5. skref: Sláðu fast í diskamottuna svo hún renni ofan af víglösunum
 • 6. skref: Eggin munu detta ofan í vínglösin.

Hvað gerist:
Af því að mjúka hlið diskamottunar snýr að glösunum heldur grófa hliðin í vítamínglösin og dregur þau með sér þegar hún dettur af glösunum. Eggin eru hinsvegar þung og detta beint niður ofan í glösin. Vatnið í glösunum kemur í veg fyrir að þau brotni.

Freyðandi gosbrunnur:
Áhöld:

 • Pakki af Mentos, blað, 2 lítra flaska af gosi – helst sykurlaust, plast box.

Leiðbeiningar:

 • 1. skref: Settu gosflöskuna í plastboxið en ekki hafa tappann á.
 • 2. skref: Opnaðu Mentol pakkann.
 • 3. skref: Búðu til trekkt úr blaðinu.
 • 4. skref: Helltu namminu í flöskuna með trekktinni.
 • 5. skref: Stígðu nokkur skref aftur á bak og fylgstu með hvað gerist.

Hvað gerist:
Í gosi er koldíoxíð. Mentos inniheldur arabísk gúmmí sem brýtur niður tengin sem halda koldíoxíðinu á sínum stað sem gerir það að verkum að lofttegundin leitar upp. Þegar lofttegundin leitar upp leitar drykkurinn líka upp.

Alka-selzer eldflaugar:
Áhöld:

 • Tóm filmubox (eða önnur lítil box með loki sem lokast ekki of kyrfilega), alka-setzer töflur, teskeið, vatn.

Leiðbeiningar:

 • 1. skref: Settu 3 teskeiðar af vatni í filmuboxið.
 • 2. skref: Settu 1/4 af Alka-setzer töflu í lokið á filmuboxinu.
 • 3. skref: Settu lokið á filmuboxið sem gerir það að verkum að Alka-seltzer taflan dettur ofan í vatnið. Lokið boxinu vel.
 • 4. skref: Hristið boxið hratt og setjið það á borð með lokið niður.
 • 5. Færðu þig frá borðinu og bíddu. Alls ekki standa yfir boxinu. Ef það gýs ekki skaltu nálgast það frá hlið með varúð.

Hægt er að gera þetta skemmtilegra með því að búa til eldflaug úr pappa og líma á filmuboxið.

Hvað gerist:
Þegar Alka-seltzer tafla kemst í snertingu við vatn losnar koldíoxíð. Lokið þrýstist niður sem lætur boxið þrýstast upp.

Mjólkurgaldur:
Áhöld:

 • 300 ml af nýmjólk, matardiskur, 4 mismunandi litir af matarlit, uppþvottalögur, bómullarhnoðrar, dropateljari.

Leiðbeiningar:

 • 1. skref: Helltu mjólk á diskinn.
 • 2. skref: Settu dropa af hverjum matarlit í mjólkina nærri miðju disksins.
 • 3. skref: Dýfðu bómullarhnoðra í uppþvottalöginn.
 • 4. skref: Settu bómullarhnoðrann í miðja mjólkina.
 • 5. skref: Horfðu á hvað gerist.

Hvað gerðist:
Mjólk er gerð úr vatni, vítamínum, steinefnum, próteini og fitu. Þegar uppþvottaleginum er bætt við lætur hann fituna og próteinin dreyfast. Þetta gerist svo hratt að matarliturinn hreyfist. Þessvegna notum við uppþvottalög til að þvo diskana okkar.

Þyngaraflið sigrast á vatni:
Áhöld:

 • Fata af vatni, 1 glas, pappaspjald.

Leiðbeiningar:

 • 1. skref: Fylltu glasið með vatni úr fötunni.
 • 2. skref: Settu pappaspjaldið ofan á glasið en gættu þess að brún glasins sé blaut.
 • 3. skref: Nuddaðu spjaldinu við glasið.
 • 4. skref: Snúðu glasinu hægt á hvolf og halltu við pappaspaldið á meðan (gott er að gera þetta yfir fötunni).
 • 5. skref: Vatnið ætti að haldast í glasinu.

Hvað gerðist:
Til þess að vatnið geti hellst úr glasinu þarf loft að koma í staðinn. Þetta gerist ekki þar sem vatnið á brún glasins fær pappaspjaldið til að haldast fast og hindra að loftið komist inn í glasið. Eftir nokkurn tíma mun pappaspjaldið hinsvegar detta niður undan þunga vatnsins.

Hraun geðveiki:
Áhöld:

 • 1 lítra tóm flaska, trekt, matarolía, vatn, matarlitur, Alka-seltzer töflur.

Leiðbeiningar:

 • 1. skref: Fylltu flöskuna að einum þriðja með vatni.
 • 2. skref: Settu 5 dropa af matarlit í flöskuna.
 • 3. skref: Notaðu trektina til að fylla flöskuna með matarolíu.
 • 4. skref: Settu hálfa Alka-setzer töflu í flöskun.
 • 5. skref: Sjáðu hraunið hreyfast.

Hvað gerðist:
Vatn og olía blandast ekki saman þar sem vatn er þéttara í sér en olía sem veldur því að það leggst á botninn. Matarliturinn blandast bara við vatnið en ekki við olíuna. Alka-setzer töflurnar detta í gegnum olíuna og freyða þegar þær koma í vatnið. Loftbólurnar fara upp í gegnum vatnið og í olíu lagið og tekur með sér litað vatn. Loftbólurnar springa og vatnið sem var utan á þeim dettur aftur á botninn.

Aðstoð við matarúthlutun (Góðverk): Fyrir jólin er nóg að gera hjá hjálparsamtökum við að úthluta mat til skjólstæðinga sinna. Þar geta röggsamir skátar komið að góðum notum.

Nánari lýsing:

Hafa þarf samband við þau hjálparsamtök sem ykkur hugnast að aðstoða í byrjun desember og fá upplýsingar um hvenær þörf er á sjálfboðaliðum og hversu marga í einu sé hægt að taka við.

Á tilgreindum tíma mæta skátarnir í það hús sem úthlutunin fer fram í hverju sinni, með skátaklút og bros, og fá leiðbeiningar um hvað þeir eiga að gera.
 
Þetta er þarft en auðvelt starf sem er mjög gefandi.
 
Mæðrastyrksnefnd, Fjölskylduhjálp Íslands og Hjálparstofnun kirkjunnar hafa undarfarin ár verið með matarúthlutanir fyrir jólin.

Forsetamerkið

forsetamerkidFramfarir einstaklings fela í sér aukna reynslu, hæfni og þroska. Dagskrárkerfið byggir á markmiðum sem er ætlað að stuðla að auknum líkams-, vitsmuna-, tilfinninga-, félags- og andlegum þroska rekkaskátanna. Hvatakerfi rekkaskáta er ætlað virka sem persónulegt aðhald til að standa sig vel og sinna því að kostgæfni að taka framförum.

Að loknu nýliðatímabilinu og vígsluer rekkaskátinn kominn með bláa klútinn sinn og rekkaskátamerki á klútinn. Merkið er vegvísir sem segir á hvaða leið skátinn er.

Hvatakerfi rekkaskáta byggir ekki á tíðri umbunun eins og á yngri aldursstigum heldur að ná settu lokatakmarki sem er að taka á móti Forsetamerkinu á Bessastöðum.

forsetamerkishafar

 

Kröfur fyrir forsetamerkið

Lokatakmark skátastarfs rekkaskátans er að fá Forsetamerkið og leiðin þangað á að vera skemmtileg, gefandi og þroskandi fyrir rekkaskátann. Ólíkt drekaskátum, fálkaskátum og dróttskátum þá er lítið gert úr sýnilegum táknum á búning á vegferðinni að Forsetamerkinu en eftir að skáti hefur fengið forsetamerkið þá ætti hann að bera það stoltur á hátíðarbúning sínum það sem eftir er.

Eftirtalið þarf að uppfylla til að fá Forsetamerki:

 • Rekkaskátinn þarf að hafa verið í virku skátastarfi í a.m.k. tvö ár
 • Skátastarf rekkaskátans þarf að innihalda fjölbreytileika þar sem reynt er á mismunandi þroskasvið skátans og hann augljóslega að kanna ný svið og vinna að persónulegum áskorunum.
 • Einhver hluti skátastarfs Rekkaskátans þarf að tengjast hjálpsemi eða samfélagsverkefni.
 • Rekkaskátinn þarf að skrá vegferð sína í ferilskráningarbók/dagbók og skila til fræðslustjóra í Skátamiðstöðina, þar sem Dagskrárráð fær hana til yfirlestrar og samþykkis. Form bókarinnar er frjálst. Hvatt er til fjölbreytilegrar útfærslu. Auk hefðbundinna lýsinga mætti t.a.m. nota ljósmyndir, kvikmyndir, bloggfærslur, dagbókarfærslur, ljóð eða myndverk. Framsetning þarf þó alltaf að vera skýr og lýsa skátastarfi rekkaskátans og upplifun hans vel.
 • Hægt er að skila sem einstaklingur, flokkur eða sveit.
 • Ferilskráningarbók er skilað aftur til eiganda að mati loknu.

Athugið að rekkaskátar verða að sækja sérstaklega um að fá Forsetamerkið og er hægt að hafa samband við BÍS varðandi umsókn. Umsóknarfrestur og skilafrestur ferilskráningarbókar er ávallt auglýstur sérstaklega.

 

 

UM STARF REKKASKÁTA

Rekkaskátum býðst fjöldi nýrra tækifæra í eigin starfi og byrja að spreyta sig á hinum ýmsu ábyrgðarhlutverkum innan skátahreyfingarinnar. Rekkaskátar starfa gjarnan saman þvert á skátafélög og byrja þar að auki í auknum mæli að starfa með róverskátum (19 – 25 ára). Rekkaskátum býðst að taka þátt í ýmsum spennandi viðburðum bæði innanlands og utan og byrja rekkaskátar því gjarnan að mynda tengsl við aðra skáta þvert yfir hnöttinn. Á rekkaskátaaldri byrja flestir að sinna foringjastörfum eða öðrum hlutverkum innan skátafélaganna og því er boðið upp á fjölda námskeiða í leiðtogaþjálfun. Það er gífurlega reynslu að sækja í rekkaskátastarfið, reynslu sem mun nýtast við leik og launuð störf um ókomna tíð. Í rekkaskátastarfinu eru möguleikarnir jafn margir og þeir eru ólíkir og reynslan sem hver skáti öðlast því bundin áhugasviði, áherslum og iðkun hvers og eins Í rekkaskátastarfinu eru tækifærin  endalaus, félagsskapurinn er frábær og starfið er ekki bara styrkjandi og skemmtilegt heldur kemur það líka sífellt á óvart.

 

REGLULEGIR HITTINGAR REKKASKÁTA

Rekkaskátar hittast reglulega yfir starfsárið. Skátafélög hafa ólíkan hátt á hvort þetta sé á föstum tímum eða á föstum stað og í mörgum skátafélögum hittast rekkaskátar og róverskátar saman. Yngri aldursbil vinna í svokölluðum skátaflokkum þar sem 5 – 8 skátar mynda skátaflokk og starfa saman að flestu yfir starfsárið. Í rekkaskátum er hópskiptingin ekki jafn formföst, rekkaskátar taka sig saman um þá dagskrá sem þau hafa áhuga á og starfa því jafnvel í mörgum hópum samtímis og ólíkum hópum yfir árið. Rekkaskátar skipuleggja líka og framkvæma einstaklingsmiðaðri dagskrá og verkefni en áður, sérstaklega þau sem vinna að forsetamerkinu. Rekkaskátar eru færir um að halda utan um eigið starf en gjarnan er einn eða fleiri eldri skátaforingi þeim til halds og trausts. Hlutverk skátaforingjans er vera skátunum til stuðnings við að koma hugmyndum sínum í framkvæmd og leiðbeina þeim eftir þörfum, þá reynir skátaforinginn iðulega að miðla vissri kunnáttu, fræðslu og reynslu til rekkaskátanna og hvetja þau til að reyna nýja hluti í starfinu.