13-15 ára | Dróttskátar

Skátar á aldrinum 13-15 ára nefnast dróttskátar.  Það er frábært að taka þátt í dróttskátastarfi, 5-7 vinir mynda flokk sem hittist einu sinni til tvisvar í viku og undirbýr eða framkvæmir verkefni sem hópinn langar til að vinna að – flóknara er það nú ekki.

Starfið í dróttskátum

 

dsstelpurVið skátarnir vitum að fólk lærir af reynslunni og að það er miklu skemmtilegra að læra með því að vinna verkefni sem maður hefur valið og undirbúið sjálfur en þegar einhver segir manni hvað eigi að gera.

Við leggjum áherslu á að unglingar prófi nýja hluti, nemi ný lönd og víkki sjóndeildarhringinn í hópi jafnaldra. Verkefnin hafa tilgang, því þó þau séu spennandi og skemmtileg, eru þau einnig leið skáta til að auka þekkingu og færni og búa skátana undir lífið.

Við erum fullviss um að unglingum finnst mikilvægt að vera sjálfstæðir, virkir og ábyrgir – og að þeir hafa gaman af félagsskap jafnaldra sem bera virðingu fyrir náttúrunni og fara saman í ferðir og útilegur – þess vegna er dróttskátastarf fyrir unglinga eins og þig.

Dæmi um viðfangsefni dróttskáta

 

Vefsíðugerð (Tækni og vísindi):

Það er hægt að halda skátafundi hvar sem er og hvenær sem er. Skátafundir á netinu eru ekki nýjir af nálinni. Sveitinn eða flokkurinn vill einnig hafa sinn eigin vettvang þar sem hann getur sýnt frá starfinu sínu. Geymt gögn og miðlað upplýsingum.

Nánari lýsing:

Markmið:

  • Að skátarnir öðlist þekkingu í vefsíðugerð.
  • Að skátarnir setji upp vefsíðu og haldi henni virkri í að minnsta kosti ár.

Sveitin stofnar heimasíðu, sniðugt er ef hægt er að fá undirsíðu á heimasíðu skátafélagsins t.d. www.skatafelag.is/nafnflokksins en það er ekki víst að það sé hægt en það er nokkuð hægt um vik í dag að stofna heimasíðu í formi bloggsíðu. Ekki þarf að hafa neina þekkingu í heimasíðu gerð eða annað þvíumlík heldur einungis grunnþekkinug á netinu. Að neðan eru tenglar á tvö handhægustu blogghýslana; WordPress og Blogspot

Á heimasíðunni getið þið birt nöfn meðlima, helstu upplýsignar um sveitina, dagskrá sveitarinnar, ferðasögur, myndir, myndbönd, nýjust fréttir og margt margt fleira.

Önnur útfærsla af þessu verkefni gæti verið á þann hátt að sveitin eða flokkurinn taki að sér að sjá um heimasíðu skátafélagins í einhvern ákveðinn tíma eða einhvern ákveðinn part af henni. Sendi inn einu sinni í viku kynningu á flokksmeðlimum í viðtalsformi eða eitthvað álíka. Einnig gætu þið gerst ljósmyndarar fyrir síðuna og tekið myndir af því sem er að gerast og sett þær á síðuna.

Talið við umsjónarmann síðunar og fáið hann til þess að úthluta ykkur verkefnum.

Hjólaferðir og ferðamennska (Frumbyggjar): Að hjóla á milli staða er umhverfisvænn og ódýr ferðamáti. Hér eru hugmyndir um hvað er hægt að gera á hjólum.

Nánari lýsing:

Sveitin:
Hjólaferð, sveitin skipuleggur og leggur upp í skemmtilega og krefjandi hjólaferð. Næst þegar sveitin ætlar að fara í skálaferð þá er tilvalið að hjóla á áfangastað. Það þarf ekki að taka sveitina nema tvo klukkutíma að hjóla fimmtán til tuttugu kílómetra.
Sveitarráð skipuleggur útilegu þar sem að hjólað er á áfangastað og aftur heim.
Þegar þið skipuleggið hjólaferð þar sem ætlunin er að gista á áfangastað hvort sem það er skáli eða tjald að þá er sniðugt að fá einhvern til þess að flytja farangur sveitarinnar á áfangastað og eins til að sækja hann aftur þegar farið verður heim.

Flokkurinn:
Flokkurinn fer í dagsferð á hjólum. Skipuleggið tuttugu og fimm til fimmtíu kílómetra hjólreiðatúr þar sem þið hjólið einhvern skemmtilegan hring um ykkar nánasta nágrenni og njótið um leið náttúrunnar og þess sem hún hefur upp á að bjóða. Flokkurinn skipuleggur ferðina saman, skoðið leiðina sem þið ætlið að hjóla á korti og leitið ykkur upplýsinga um aðstæður.
Við skipulagningu ferðarinnar skuluð þið reyna að forðast að hjóla á mjög umferðarþungum stöðum.

Einstaklingurinn:
Stundar fjallahjólamennsku eða eitthvað álíka á skipulegan máta. Tekur þátt í hjólreiðaferð þar sem hjólaðir eru að minnsta kosti tvær krefjandi dagleiðir.

Hjólafundur: Áður en farið í langferðir á hjólum er nauðsynlegt að tryggja það að allir séu á þokklegum hjólum. Látið skátana mæta með hjólin sín á skátafund og farið yfir þau og bendið þeim á ef eitthvað þarf að laga, glitaugu, loftþrýsing dekkja, bremsubúnað og þess háttar.
Ef þið eruð ekki með næga þekkingu í þessum efnum gæti verið ráð að fara á næstu lögreglustöð og biðja þá um að kíkja á hjólin og benda á það sem er í góðu lagi og það sem betur mætti fara.

Hjólaþrautir:
Ef þið eruð með hjólin á fundi og viljið nota þau eitthvað meira þá er einfalt að setja upp litla hjólaþrautabraut. Látið síðan skátana keppa sín á milli í hjólaþrautum.
Leggið tvær spýtur (trönur geta einnig verið hentugar) á jörðina, hafið bilið á milli þeirra ekki meira en svo að hjól komist þar á milli. Síðan keppa skátarnir í því hver getur verið lengst á leiðinni í gegnum spýturnar. Bannað er að setja fæturnar niður og ekki má aðstoða þann sem er í brautinni. Þetta reynir á jafnvægi og þolinmæði skátana.

Hraðaþraut:
Leggið braut með einhverskonar hindrunum (getið notað skátaklútana eða hvað sem er við hendina) Hafið brautina þannig að hægt sé að hjóla á milli hindrananna. Síðan keppast skátarnir um það hver er fljótastur að sviga í kringum hindranirnar.
Þið getið síðan auðvitað fundið upp á hvaða þrautabraut sem ykkur dettur í hug allt eftir efni og aðstæðum, kannski er tilvalinn þrautabraut í næsta nágrenni við ykkur þá auðvitað smellið þið ykkur þangað.
Munið að það er í lögum að einstaklingar undir 15 ára aldri skuli nota hjálm við hjólreiðar.

Efni og áhöld:
Hjól, hjálmur, þegar þið farið í lengri ferðir gætið þess þá að vera með viðgerðarsett með í för. Það getur ýmislegt farið úrskeiðis en flest ætti að vera hægt að laga á staðnum ef þið eruð með einfalt viðgerðarsett við hendina. Munið einnig eftir hjólapumpu.

Tímahylki (Samfélagið): Tímahylki eru hylki sem grafin eru í jörðu og innhalda upplýsingar um samtímann. Ef að hylkin finnast svo löngu síðar getur mannfólk framtíðarinnar fengið nasaþef af fortíðinni!

Nánari lýsing: 

Flokkurinn/sveitin útbýr tímahylki og grefur það í jörðu, t.d. við byggingu nýs skátaskála eða skátaheimilis. Eins getið þið grafið það á afviknum stað, búið til kort þar sem þið merkið staðinn inn á og límt aftan á myndina af Baden-Powell í skátaheimilinu og beðið eftir að komandi skátakynslóðir finni það.

Tímahylki:

Tímahylki innihalda smámuni úr samtímanum til að veita fólki í framtíðinni innsýn í líf á jörðinni á okkar tímum. Hylkin geta innihaldið hvað sem er og eru oft grafin undir hornsteini merkilegra bygginga.

Að búa til hylkið:

Notið ílát úr efni sem ekki brotnar upp í náttúrunni, svo sem plast, málm eða sterkt gúmmí. Hægt er að nota eldhúsílát, nestisbox, málmkassa með lás, svo framarlega sem væta kemst ekki inn að innihaldinu. Gott er að þétta samskeytin með sílikon-kítti.

Samtímamunir:

Þegar smáhlutir eru valdir fyrir hylkið er gaman að týna saman hluti úr skátastarfi samtímans, svo sem merki félagsins eða frá viðburðum, klúta, hnúta, áhöld, bæklinga, mótsbækur og annað. Líka er gaman að setja inn myndir af meðlimum flokksins og skrifa persónulegar kveðjur til mannfólks framtíðarinnar.

Aðrir hlutir úr samtímanum sem gætu haft sögulegt gildi seinna meir eru til dæmis:

  • Úrklippur úr dagblöðum: aðalfréttir ársins.
  • Myndir af tækni dagsins í dag (bílar, tölvur, símar og annað sem þróast hratt og breytist).
  • Tíska: eitthvað sem segir til um tísku dagsins í dag, myndir eða smáhlutir.
  • Frímerki
  • Kvittannir úr verslunum (til að sjá verðbreytingar á nauðsynjum).
  • Tónlist

Áhöld og tæki:

  • Nestisbox eða annað box úr plasti eða málmi
  • sílíkon-kítti
  • smámunir úr samtímanum

Bjargsig (Jaðaríþróttir): Bjargsig er hlutur sem er skyldur sprangi, klettaklifri, innanhúsklifri, ísklifri og viðlíka ævintýramennsku. Að síga í björg er nokkuð sem stundað hefur verið frá örófi alda hér á Íslandi. Bændur sigu mikið í kletta til eggjatöku og á mörgum stöðum á landinu er það ennþá stundað. Grunnútbúnaðurinn hefur verið sá sami í mörg herrans ár en öryggisútbúnaður sem er í boði í dag er mun viðameiri.

Nánari lýsing:

Sig er nokkuð gamalt fyrirbæri á Íslandi þar sem sigið er til eggja. Sig er einnig notað í björgunaraðgerðum hjálparsveita og þyrlubjörgunarsveitar Landhelgisgæslunnar.

Flokkurinn æfir sig í bjargsigi með það að markmiði að flokksmeðlimir verði kunnugir bjargsigi. Þó svo nafnið á þessu verkefni vísi í það að síga eigi í björg þá er það ekki endilega nauðsynlegt. Sá útbúnaður sem er til í dag er þess eðlis að hægt er að síga fram af, því sem næst hverju sem er.

Flokkurinn þarf að verða sér út um viðeigandi útbúnað og hann þarf að vera í lagi. Síðan þarf auðvitað að finna sér klett eða annað hentugt í nágrenninu sem er þess eðlis að allir í sveitinni geti spreytt sig á siginu. Varðandi þann útbúnað sem þarf þá er möguleiki á að einhver í sveitinni þinni eigi nauðsynlegan útbúnað. Einnig getur vel verið að þitt skátafélagið eigi nauðsynlegan búnað en ef ekki þá er nokkuð víst að björgunarsveitir í nágrenni við ykkur eiga búnaðinn tiltækan.

Í bjargsigi er nauðsynlegt að þið farið ekki of geyst í verkefnið heldur byrjið smátt og takist á við stærri áskoranir eftir því sem áhuginn og getan leyfir. Byrjið á því að síga hæðir sem allir í flokknum treysta sér í en verið jafnframt viðbúinn því að flokksmeðlimir munu vera misfljótir að ná tökum á siginu og reynið að sjá til þess að allir komist í áskorun sem er við hæfi.

Verkefni:

Sígið niður 15 metra klettavegg með sigáttu. Hver einstaklingur í sveitinni á að hafa aflað sér það mikillar reynslu í bjargsigi að hann geti aðstoðað aðra skáta sem eru byrjendur og á að þekkja búnað sem þarf að nota og þær öryggiskröfur sem eru gerðar til bjargsigs.

Aldrei ætti að leyfa skátum á þessum aldri að síga nema að minnsta kosti þrír vanir foringjar séu með í för. Einn hjálpar börnunum í sigbeltið og sér um að spenna það, annar festir börnin í línuna og hjálpar þeim yfir brúnina og sá þriðji sér um að tryggja neðan frá.

Tími:

Ef þið hafið undirbúið þetta verkefni vel þá er vel hægt að klára verkefnið á einum fundi. 70 – 80 mínútur ættu að duga. En líkt og áður segir undirbúið ykkur vel, finnið hentuga staðsetningu, sjáið til þess að allur útbúnaður verði til staðar og eins að skátarnir mæti á fundinn á þann stað þar sem þið ætlið að síga eða þá að stutt er að ganga þaðan frá skátahúsinu. Nýtið flokksfundinn til þess að kynna undirstöðuatriði fyrir flokknum og reynið að sjá til þess að sem flestir verði með grunnatriðin á hreinu eftir fundinn.

Áhöld og tæki:

  • Siglína
  • sigátta
  • hjálmur
  • sigbelti / klifurbelti